Erlent

Samkomulag sem miðar að friði

Sendiherrar Frakka og Bandaríkjanna náðu samkomulagi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag um ályktanartillögu sem miðar að því að binda endi á átökin í Líbanon. Í ályktunartillögunni er hvatt til þess að Hizbollah-skæruliðar og Ísraelsher hætti árásum sínum tafarlaust.

Orðalag ályktunartillögunnar þykir fagnaðarefni fyrir Ísraelsmenn, en samkvæmt því hafa Ísraelar rétt á að verja sig og svara árásum Hizbollah. Hizbollah hefur hins vegar ekki slíkan rétt. Tillagan hefur verið lögð fyrir öryggisráðið og vonast er til að ályktunin verði samþykkt eftir fáeina daga.

Átökin milli Hizbollah og Ísraelshers hafa aldrei verið jafn hörð og nú. Að minnsta kosti fjórir létust í loftárásum á suðurhluta Beirúts í dag og sjö létust í árásum í hafnarborginni Týrus. Ísraelskar flugvélar dreifðu einnig miðum yfir borgina Sidon í Suður-Líbanon sem vöruðu íbúa borgarinnar við árásum og hvöttu íbúana til að yfirgefa svæðið. Þrátt fyrir það virðast íbúarnir ekki ætla að fara frá heimilum sínum en um 800.000 Líbanar hafa flúið heimili sín í átökunum. Aðstoðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna, David Welch, fundaði í dag með Fuad Saniora forsætisráðherra Líbanons til ræða leiðir til að stöðva átökin milli Ísraela og Hizbollaha-hreyfingarinnar. Eftir fundinn sagði Welch að viðræðurnar hafi verið skref í átt að friði en enn væri langt í land.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×