Innlent

Brennuvargur gengur laus

Verulegt tjón 
Eldurinn kom upp í fiskikörum sem staflað var upp í porti verksmiðjunnar.
Verulegt tjón Eldurinn kom upp í fiskikörum sem staflað var upp í porti verksmiðjunnar. Mynd/Sveinn Kristjánsson

Verulegt tjón varð í eldsvoða við og í Síldarverksmiðjunni á Akranesi í gær. Lögregla segir ljóst að um íkveikju hafi verið að ræða og að brennuvargur gangi laus í bænum.

Tilkynning um eldinn barst um klukkan fimm síðdegis. Slökkviliðið var fljótt á staðinn með tiltækt lið og stóð slökkvistarf í rúma klukkustund.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu á vettvangi kom eldurinn upp í fiskikörum sem stóðu í stafla í porti verksmiðjunnar. Eldurinn komst síðan inn á milli þilja mjölpökkunarhúss verksmiðjunnar. Innviðir hússins sluppu að mestu en það brann illa að utan, auk þess sem klæðning hússins og einangrun er að mestu ónýt.

Brunavakt var á staðnum fram eftir kvöldi og lögregla mun rannsaka brunann áfram. Þetta er fjórði bruninn á Akranesi á tiltölulega skömmum tíma þar sem grunur er um íkveikju. Öll málin eru óupplýst. Að sögn lögreglu er ljóst að við brennuvarg er að etja, hvort sem sami maður var að verki í öllum tilvikum eða ekki.

Lögregla hvetur hvern þann sem varð var við einkennilegar mannaferðir við Síldarverksmiðjuna í gær eða kann að geta veitt einhverjar upplýsingar um málið að hafa samband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×