Innlent

Erfitt að banna öflug hjól

Siv Friðleifsdóttir segir mótorhjólaakstur skemmtilegan en honum fylgi mikil ábyrgð.
Siv Friðleifsdóttir segir mótorhjólaakstur skemmtilegan en honum fylgi mikil ábyrgð.

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, segir að hugfar þeirra mótorhjólamanna sem aka á ofsahraða verði að breytast en telur illmögulegt að banna kraftmestu hjólin, líkt og stungið hefur verið upp á. „Ég held að það sé mjög erfitt. Verður þá ekki að banna kraftmikla bíla líka? Jafnvel alla bíla sem geta ekið yfir löglegum hraða?“ spyr hún og svarar sjálfri sér neitandi. Hún bendir á að þó menn eigi mjög kraftmikil hjól þurfi þeir ekki að aka þeim á ofsahraða, enda akkúrat ekkert sem réttlæti það. „Það eru mannslíf í húfi,“ segir Siv.

Hún vonast til að umræðan um ofsaakstur hafi áhrif á þá sem hann stunda, en leggur áherslu á að aðeins sé um fámennan hóp mótorhjólafólks að ræða, langflestir fari að lögum og reglum. Hins vegar séu mótorhjól þess eðlis að ökumenn þeirra geti á afar skömmum tíma komið þeim á mikla ferð.

Siv segir að einnig þurfi að tryggja að vegakerfið sé eins gott og hægt er að hafa það, en flókið sé að búa svo um hnúta að slysahætta sé í lágmarki.

Sjálf segist Siv halda sig á löglegum hraða þegar hún hjólar en hún á ekki mótorhjól sem stendur þar sem hún seldi það konu á Akureyri fyrir nokkru. „Þetta er skemmtilegt sport en því fylgir mjög mikil ábyrgð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×