Innlent

Iðnaðarráðherra vissi ekki af greinagerð Gríms

Greinagerð Gríms Björnssonar náði ekki inn á borð iðnaðarráðherra né ríkisstjórnar fyrr en eftir að lög um Kárahnjúkavirkjun voru samþykkt í apríl 2002. Þetta kom frá á fundi iðnaðarnefndar sem nú stendur yfir.

Greinagerðina skrifaði Grímur og sendi Orkumálastjóra í febrúar 2002. Fljótlega eftir það var haldinn fundur hjá Landsvirkjun þar sem athugasemdir Gríms voru skoðaðar og þeim svarað. Eins og fram hefur komið í fréttum hér á NFSþá hefur Þorkell Helgason, orkumálastjóri sagt að hann ákvörðun um að greinagerð Gríms væri trúnaðarmál hefði hann tekið í samráði við iðnaðarráðuneytið. Á fundi iðnaðarnefndar kom fram að starfsmenn orkustofnunar sem og Landsvirkjunar sáu ekki ástæðu til að gera iðnaðarráðherrra grein fyrir athugasemdunum.

Nefndarmenn Samfylkingar höfðu farið fram á það við formann iðnaðarnefndar að Valgerður Sverrisdóttir kæmi á fund nefndarinnar og skýrði sitt mál. Eftir samtal við Valgerðu sá formaður nefndarinnar ekki ástæða til að boða Valgerði á fundinn þar sem hún væri búin að skýra mál sitt á Alþingi og í fjölmiðlum.

Upphaflega stóð til að fundurinn stæði til klukkan sex í dag en nú er ljóst að hann mun standa fram á kvöld. Þegar fulltrúar Landsvirkjunar, Orkustofnunar, iðnaðarráðuneytisins og Grímur Björnsson hafa skýrt sitt mál taka við umræður um hönnun Kárahnjúkastíflu, nýja áhættumatið sem og arðsemismat virkjunarinnar og hefur formaður nefndarinnar kallað til alla helstu sérfræðinga Landsvirkjunar sem og hönnuði hennar til að ræða við nefndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×