Körfubolti

Grikkir og Bandaríkjamenn í undanúrslit

Carmelo Anthony skoraði 19 stig fyrir Bandaríkjamenn gegn Þjóðverjum
Carmelo Anthony skoraði 19 stig fyrir Bandaríkjamenn gegn Þjóðverjum NordicPhotos/GettyImages

Evrópumeistarar Grikkja og Bandaríkjamenn tryggðu sér í morgun sæti í undanúrslitum HM í körfubolta sem fram fer í Japan. Grikkir unnu Frakka auðveldlega 73-56 í morgun og í hádeginu lögðu Bandaríkjamenn Þjóðverja 85-65, þrátt fyrir að vera langt frá sínu besta í sóknarleiknum.

Antonis Fotsis var stigahæstur í liði Grikkja gegn Frökkum með 14 stig, en þetta var lægsta stigaskor franska liðsins í keppninni til þessa. Evrópumeistararnir hafa ekki hreppt jafn margar fyrirsagnir og Spánverjar, Argentínumenn og Bandaríkjamenn það sem af er móti, en liðið er engu að síður komið í undanúrslit á HM í þriðja sinn í síðustu fjórum keppnum og er til alls líklegt.

Bandaríkjamenn voru langt frá sínu besta í sóknarleiknum í sigrinum á Þjóðverjum, en það var góð rispa liðsins í þriðja leikhlutanum sem skóp sigurinn. Carmelo Anthony var stigahæstur í liði Bandaríkjamanna með 19 stig og LeBron James kom næstur með 13 stig. Dirk Nowitzki og Ademola Okulaja skoruðu mest Þjóðverja, 15 stig hvor.

Það er því ljóst að það verða annars vegar Bandaríkjamenn og Grikkir og hinsvegar Argentínumenn og Spánverjar sem leika til undanúrslita á mótinu á föstudag.

Á morgun verður keppt um 5.-8. sæti á mótinu, en þar mætast Litháar og Tyrkir fyrst og þá Frakkar og Þjóðverjar. Úrslitaleikurinn fer fram á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×