Sport

Carvalho hetja Chelsea

Ashley Cole byrjaði á bekknum hjá Chelsea í dag.
Ashley Cole byrjaði á bekknum hjá Chelsea í dag. MYND/Getty

Chelsea þurfti að hafa mikið fyrir 2-1 sigri sínum á Charlton í ensku úrvalsdeildinni í dag en það var varnarmaðurinn Richardo Carvalho sem skoraði sigurmarkið í síðari hálfleik. Ashley Cole lék sinn fyrsta leik fyrir Chelsea og það gerði William Gallas einnig fyrir Arsenal gegn Middlesbrough.

Didier Drogba kom Chelsea yfir strax á 6. mínútu leiksins en fyrrum leikmaður þeirra bláklæddu, Jimmy Floyd Hasselbaink, jafnaði metin ekki löngu síðar. Það var síðan Carvalho sem reyndist hetja dagsins. Chelsea er í fjórða sæti deildarinnar með níu stig eftir fjóra leiki. Hermann Hreiðarsson var í leikbanni og lék ekki með Charlton.

William Gallas hefði líklega getað hugsað sér betri byrjun á ferli sínum hjá Arsenal en liðið náði aðeins jafntefli gegn Middlesbrough á heimavelli sínum, 1-1. James Morrison kom Middlesbrough yfir í fyrri hálfleik en Thierry Henry jafnaði metin úr vítaspyrnu um miðjan síðari hálfleik. Þrátt fyrir mikla pressu tókst Arsenal ekki að skora fleiri mörk og hefur liðið nú aðeins hlotið 2 stig úr fyrstu þremur leikjunum. Gallas lék allan leikinn í stöðu vinstri bakvarðar.

Portsmouth heldur sigurgöngu sinni áfram og í þetta sinn lagði liðið Wigan á heimavelli sínum. Það var Benjamin Mwaruwari sem skoraði eina mark leiksins.

Heiðar Helguson sat allan tímann á varamannabekk Fulham sem vann frækinn útisigur á Fulham. Brian McBride og Carlos Bocanegra skoruðu tvisvar fyrir Fulham á síðustu 10 mínútum og tryggðu þrjú stig.

Gary Speed var hetja Bolton þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á 96. mínútu og tryggði liði sínu 1-0 sigur gegn Watford. Þá gerðu Sheffield United og Blackburn markalaust jafntefli þar sem bæði lið misnotuðu vítaspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×