Arsene Wenger, stjóri Arsenal, var hæst ánægður með sína menn eftir að þeir slógu Real Madrid út úr Meistaradeildinni í gær eftir markalaust jafntefli á Highbury. Wenger segist sjá mikil batamerki á liðinu á síðustu tveimur mánuðum.
"Það sýnir mikinn styrk að spila tvo leiki við Real Madrid og halda hreinu í þeim báðum. Það er eitthvað að gerast hjá liðinu núna og ég held að það sé loksins að smella saman. Leikmennirnir hafa sýnt sterka skapgerð og ég sé mikil batamerki á liðinu á síðustu tveimur mánuðum," sagði Wenger, en viðurkenndi að lið sitt hefði haft heppnina með sér. Honum þótti einnig ástæða til að nefna frammistöðu Jens Lehmann í markinu, sem bjargaði liðinu í tvígang.