Erlent

Sitja sem fastast í ræðustól

Hindra störf þingsins Þingmenn Flokks héraðanna hafa gripið til eigin úrræða til þess að koma í veg fyrir að appelsínugulu flokkarnir myndi nýja ríkisstjórn.
Hindra störf þingsins Þingmenn Flokks héraðanna hafa gripið til eigin úrræða til þess að koma í veg fyrir að appelsínugulu flokkarnir myndi nýja ríkisstjórn.

Þingmenn stærsta stjórnarandstöðuflokksins í Úkra­ínu hafa undanfarna daga hindrað störf þingsins með því að sitja sem fastast um ræðustól þingsins, stól þingforsetans og stóla sem ætlaðir eru ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Þannig hefur þeim tekist að koma í veg fyrir að Júlía Timosjenkó geti tekið á ný við embætti forsætisráðherra. Þingið hefur ekki getað greitt atkvæði um skipun hennar í embættið, og þingið hefur heldur ekki getað greitt atkvæði um hver verður næsti þingforseti.

"Trúið mér, ég hef oft tekið þátt í aðgerðum af þessu tagi, þeir geta ekki setið þarna til eilífðar," sagði Petro Porosjenkó, sem verður næsti þingforseti fái þingmeirihlutinn sínu framgengt áður en yfir lýkur.

Núverandi þingmeirihluti hefur sjálfur beitt þessari aðferð, að sitja um stóla æðstu embættismanna þingsins, þegar stjórnarflokkarnir þrír voru í stjórnarandstöðu gegn þáverandi forseta landsins, Leoníd Kútsjma.

Samkvæmt stjórnarskrá Úkraínu hefur þingið fjórar vikur til þess að greiða atkvæði um nýja ríkisstjórn. Kosið var til þings í mars en það var ekki fyrr en í síðustu viku sem þrír flokkar, sem voru samherjar í appelsínugulu byltingunni svonefndu, náðu samkomulagi um stjórnarmyndun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×