Erlent

Nýtt myndband frá bin Laden

MYND/AP

Osama bin Laden, leiðtogi al Kaída hryðjuverkasamtakanna, vottar Abu Musab al-Zarqawi, látnum leiðtoga samtakanna í Írak, virðingu sína á nýju myndbandi sem birt var á vefsíðu íslamskra öfgamanna í nótt. Þar hrósar hann al-Zarqawi og ver árásir hans á óbreytta borgara. Hann krefst þess einnig að bandarísk stjórnvöld afhendi ættingjum al-Zarqawi líkið af honum.

Myndbandið sýnir ekki nýjar myndir af bin Laden heldur er þar gamla mynd af honum að finna, auk myndar af al-Zarqawi. Nýjar myndir hafa ekki verið teknar af bin Laden síðan í október 2004.

Ekki hefur fengist formlega staðfest að þetta sé rödd bin Laden sem heyrist á myndbandinu en það er þó talið líklegt. Bandaríska leyniþjónustan, CIA, fer nú yfir myndbandið sem er það fjórða frá bin Laden í ár reynist það ósvikið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×