Erlent

B6 vítamín gegn Parkinsons?

Neysla B6 vítamíns virðist minnka líkurnar á að fá Parkinsons-sjúkdóminn. Því meira B6 vítamín, því betra. Hollensk rannsókn bendir til þess að neysla B6 vítamíns minnki líkurnar á Parkinsons. Parkinsons er sjúkdómur sem stafar af því að magn boðefnisins dópamíns minnkar hratt í heilanum. Dópamín er notað til að stjórna hreyfingum líkamans.

Rúmlega fimm þúsund manns tóku þátt í rannsókninni, en niðurstöður hennar voru birtar í júlíhefti tímaritsins Neurology. Þátttakendur voru karlar og konur yfir 55 ára aldri sem höfðu ekki greinst með sjúkdóminn þegar rannsóknin hófst. Fylgst var með fólkinu í 10 ár og á þeim tíma greindust 72 með Parkinsons. Niðurstöðurnar sýndu að þeir sem tóku inn mest magn af B6 vítamíni voru í helmingi minni hættu á að greinast með Parkinsons en viðmiðunarhópurinn. Líkurnar voru þeim mun minni eftir því sem fólk tók inn meira af B6 vítamíni.

B6 vítamín auðveldar efnaskipti og er nauðsynlegt fyrir ónæmis- og taugakerfið. B6 vítamín er að finna bæði í kjöti og grænmeti. B6 vítamín virðist vernda heilafrumur fyrir skaða af völdum svokallaðra radikala sem valda efnahvörfum. Rannsóknir hafa sömuleiðis sýnt fram á að reykingar minnka líkurnar á Parkinsons, líklega vegna verndunaráhrifa nikótíns sem leggst utan á heilafrumur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×