Erlent

Yukos úrskurðað gjaldþrota

Stofnandi Yukos, Mikhail Khodorkovsky, var á síðasta ári dæmdur í níu ára fangelsi fyrir þjófnað, skattsvik og fjárdrátt. Málareksturinn gegn honum hafði þá staðið í um tvö ár.
Stofnandi Yukos, Mikhail Khodorkovsky, var á síðasta ári dæmdur í níu ára fangelsi fyrir þjófnað, skattsvik og fjárdrátt. Málareksturinn gegn honum hafði þá staðið í um tvö ár. MYND/Reuters

Rússneska olíufélagið Yukos hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Félagið var stærsti olíuframleiðandi í Rússlandi þar til stofnandi Yukos var ákærður fyrir ýmis fjársvik fyrir þremur árum.

Það var dómstóll í Moskvu, höfuðborg Rússlands, sem úrskurðaði Yukos gjaldþrota í dag. Niðurstaðan þykir ekki koma á óvart eftir það sem á undan er gengið. Stofnandi Yukos, Mikhail Khodorkovsky, var á síðasta ári dæmdur í níu ára fangelsi fyrir þjófnað, skattsvik og fjárdrátt. Málareksturinn gegn honum hafði þá staðið í um tvö ár og sjálf réttarhöldin í tæpt ár.

Margir segja stjórnvöld í Rússlandi hafa hannað atburðarásina til að losna við pólitískan andstæðing fyrir forsetakosningarnar þar í landi árið 2008 en Khodorkovsky var upprennandi stjórnmálamaður og hatrammur andstæðingur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Þá er talið að ásókn ríkisins í auðlindir Yukos hafi einnig spilað þarna inn í. Í framhaldi af dóminum yfir Khodorkovsky neyddust eigendur Yukos til að selja stærstan hluta eigna sinna á niðursettu verði til að reyna að standa skil á kröfum og ógreiddum sköttum. Kaupandinn var olíufélagið Rosneft sem er einmitt í eigu rússneska ríkisins.

Eftir gjaldþrotsúrskurðinn í dag sagði lögmaður Yukos að nú hefði endanlega verið gengið af fyrirtækinu dauðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×