Innlent

Nóvember óvenju illviðrasamur

Sigurður Þ. Ragnarsson
Sigurður Þ. Ragnarsson MYND/Vilhelm Gunnarsson

Þrátt fyrir rysjótta tíð og kuldakast í nýliðnum nóvember mánuði mældist meðalhitinn í Reykjavík 0,1°C yfir meðaltali. Hins vegar var meðalhitinn á Akureyri 0,7°C undir meðalhita mánaðarins. Þetta eru niðurstöður sem fást við veðurfarslegt uppgjör nóvember mánaðar.

"Þetta segir okkur hve meðaltalsreikningar geta gefið fína mynd af hlutunum" segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur á Veðurstofu Stöðvar 2. Í kuldakastinu sem kom um miðjan mánuðinn, nánar tiltekið þann 18. fór frostið í Reykjavík í 13,6°C og á Akureyri í 15,2°C, einnig þann 18 en sé landið allt skoðað varð kaldast í mánuðinum á Brúárjökli einnig þann 18. nóvember, 25,2°C.

Illviðri voru óvenju tíð í mánuðinum, hvassast varð þann 5. nóvember, en þá mældist tíumínútna meðvindhraði í 44,9 m/s á Gagnheiðahnúk og vindhviður í 56,8 m/s. Hvassast á byggðu bóli þennan dag varð á Stórhöfða 32 m/s og þar fóru vindhviður upp í 43,3 m/s. Hviður á Reykjavíkurflugvelli þann 5. fóru í 34,4 m/s og á Keflavíkurflugvelli í 38,6 m/s.

"Jú ætli megi ekki segja að þessi nóvembermánuðir hafi á heildina litið verið heldur óhagstæður í veðurfarslegu tilliti. Það er því sanngjarnt að desember verði hagfelldur þó engu sé að treysta þegar Kári er kominn í jötunmóð" segir Sigurður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×