Innlent

Sparisjóður Keflavíkur kaupir afgreiðslu Landsbanka í Sandgerði

Frá Sandgerði.
Frá Sandgerði.
Landsbankinn og Sparisjóðurinn í Keflavík hafa gert samkomulag um kaup Sparisjóðsins á afgreiðslu Landsbankans í Sandgerði. Fram kemur í tilkynningu frá félögunum s parisjóðurinn mun taka við öllum eignum og skuldum afgreiðslunnar 5. mars ásamt póstafgreiðslu í Sandgerði sem Landsbankinn og Íslandspóstur eru aðilar að.

Til hægðarauka fyrir viðskiptavini afgreiðslunnar munu einungis bankanúmer þeirra breytast en öll reikningsnúmer haldast óbreytt. Sparisjóðurinn mun senda viðskiptavinum nánari upplýsingar um framkvæmdina á næstu dögum.

Engar uppsagnir starfsmanna í tengslum við söluna eru fyrirhugaðar og hefur núverandi starfsmönnum Landsbankans í Sandgerði verið boðin störf hjá Sparisjóðnum.

Þetta er þriðja útibú Landsbankans sem er selt í þessari viku. Á mánudag var tilkynnt að bankinn hefði selt Sparisjóði Þórshafnar afgreiðslur sínar á Kópaskeri og Raufarhöfn. Ekki hefur náðst í bankastjóra Landsbankans og því hafa ekki fengist svör við því hvort búast megi við sölu fleiri útibúa á landsbyggðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×