Innlent

Óvíst hvort af samvinnu verði

Þyrla landhegigæslunnar TF-SIF. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir enn ekkert útilokað í samvinnumálum Íslendinga og Norðmanna. Vilji Norðmenn herþyrlur verði þó ekkert úr samvinnu milli þjóðanna í þyrlukaupum.
Þyrla landhegigæslunnar TF-SIF. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir enn ekkert útilokað í samvinnumálum Íslendinga og Norðmanna. Vilji Norðmenn herþyrlur verði þó ekkert úr samvinnu milli þjóðanna í þyrlukaupum.

Óvíst er hvort verði af samvinnu Íslands og Noregs í kaupum á björgunarþyrlum. Láti Norðmenn hernaðarleg sjónarmið ráða í vali á þyrlutegund verður samvinnan að engu. Fyrirhugað er að þjóðirnar ræði saman um sameiginlegt útboð á þyrlum til íslensku Landhelgisgæslunnar og norsku strandgæslunnar.

"Enn er ekkert útilokað í þessu máli," segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra.

"Innan norska stjórnkerfisins takast á ólík sjónarmið, það hvort eigi að kaupa hergerð af þyrlum eða borgaralega gerð. Ef Norðmenn láta hernaðarleg sjónarmið ráða, skilja leiðir á milli þeirra og okkar við val á þyrlum."

Norska dómsmálaráðuneytið birti skýrslu um þessi mál í júlí seinastliðnum. Björn segir að síðan þá hafi verið skipst á upplýsingum um málið milli Íslendinga og Norðmanna og enn sé ekkert útilokað í þessu máli.

"Þetta mál er ekki enn komið inn á okkar borð. Það liggur ekki fyrir um hvernig að þessu verður staðið," segir Júlíus S. Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×