Skoðun

Ríkið tekur yfir prentsmiðju

Það er ekki oft sem íslenska ríkið ræðst með krafti gegn íslenskum fyrirtækjum með beinum og augljósum hætti. Það gerðist þó í vikunni þegar ríkið keypti prentfyrirtækið Samskipti og opinberaði fyrirætlanir sínar um að reka það í samkeppni við önnur prentfyrirtæki hérlendis.

Kaupin voru gerð undir formerkjum ríkisfyrirtækisins Íslandspósts og sögð eðlilegt skref í þeim rekstri. Til að benda á hið augljósa er póstdreifing og prentrekstur með öllu óskyldur rekstur og því um alveg ný afskipti ríkisins af rekstri fyrirtækja í landinu að ræða. Þessi uppkaup ríkisins á prentfyrirtæki hefur ákaflega slæmar afleiðingar. Einstaklingar sem reka fyrirtæki geta nú búist við því að ríkið hefji við þá niðurgreiddan samkeppnisrekstur hvenær sem er. Hvenær mun til dæmis RÚV kaupa bíóhús og hefja rekstur eða ÁTVR kaupa gosdrykkja- og ávaxtasafaverksmiðju og hefja framleiðslu? Það er ótækt að einstaklingarnir í landinu sem leggja sig allir fram við að sinna rekstri sínum þurfi stanslaust að óttast innkomu ríkisins á markaðinn þar sem niðurgreidd þjónusta er veitt. Einstaklingar geta ekki tekið fé af fólki með sköttum og lagt í rekstur fyrirtækja sinna. Það getur hins vegar íslenska ríkið, eigandi Íslandspósts og nú Samskipta, gert ef reksturinn gengur ekki sem skyldi. Þessa þróun þarf að stöðva.

Stefna ætti að því að selja Íslandspóst og Samskipti til fjárfesta sem hafa áhuga á að reka fyrirtækin á frjálsum markaði. Íslensk prentfyrirtæki hafa staðið sig vel í rekstri og skipta þau tugum ef ekki hundruðum sem starfa hérlendis. Alls engin þörf er á ríkisprentsmiðju og duga gömlu þjóðnýtingarrökin um að uppkaupin séu aukin þjónusta við neytendur því skammt. Með sömu rökum gæti ríkið einfaldlega tekið yfir allan rekstur í landinu líkt og tíðkaðist í Sovétríkjunum sálugu. Vikið var frá þeirri stefnu hérlendis um 1990 og hefur Ísland notið mestu hagsældartíma í Íslandssögunni síðan.

Ísland er frjálst land. Hér hefur ríkt gott rekstrarumhverfi, skattar hafa verið lágir, auðvelt hefur verið að stofna fyrirtæki og einstaklingarnir hafa haft mikil tækifæri til að nýta krafta sína öðrum til hagsbóta í sínum rekstri. Slíkt skipulag er skipulag árangurs sem ber ávöxt. Sovétskipulagið bar engan ávöxt. Stefna ætti því að frjálsara skipulagi og draga úr umfangi ríkisins. Slík stefna bætir allra hag.

Höfundur er formaður Frjálshyggjufélagsins.




Skoðun

Sjá meira


×