Innlent

Segir ekki tekið tillit til afsláttarkjara

MYND/Páll Bergmann

Síminn segir Póst- og fjarskiptastofnun ekki taka tillit til þeirra afsláttarkjara sem fyrirtækið veiti GSM-notendum sínum í samanburði á verði á GSM-símtölum á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Eins og komið hefur fram í fréttum sýnir ný skýrsla frá Póst- og fjarskiptastofnun og systustofnunum hennar að GSM-þjónusta hafi hækkað hér á landi frá árinu 2002 en hins vegar lækkað í hinum norrænu ríkjunum.

Í tilkynningu frá Símanum segir að í alþjóðlegum verðsamanburði sé helsti áhrifavaldur verðmyndunarinnar hérlendis sniðgenginn, en það séu afsláttarkjör. Eins og Póst og fjarskiptastofnun sé ljóst hafi samkeppnin á farsímamarkaði á Íslandi einkum falist í áskriftartilboðum og afslætti í valin símanúmer.

Ísland hafi í gegnum tíðina, þrátt fyrir að vinaafslættir hafi ekki verið notaðir í alþjóðlegum samanburði, verið með þeim ódýrari í heiminum í símakostnaði miðað við OECD-samanburð.

„Í tilkynningu frá PFS er fullyrt að íslenski markaðurinn einkennist af fákeppni. Þrátt fyrir talsvert meiri fjölda þjónustuaðila á hinum Norðurlöndunum, þá er fjöldi íbúa á hvern þjónustuaðila lægstur á Íslandi.

Síminn mælist til þess að PFS beri í framtíðinni saman sambærilega möguleika fyrir viðskiptaskiptavini á Íslandi og erlendis. Þegar verið er að skoða verðlagsþróun er nauðsynlegt að taka tillit til áhrifa allra afsláttarkjara," segir að endingu í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×