Erlent

Landamærastöð á Gaza opnuð

Meðlimir hryðjuverkasamtakanna sem hafa ísraelska hermanninn í haldi
Meðlimir hryðjuverkasamtakanna sem hafa ísraelska hermanninn í haldi MYND/AP

Ísraelar opnuðu í dag mikilvæga flutningaleið inn á Gazasvæðið til að tryggja íbúum þar hjálpargögn. Ekkert lát virðist ætla að verða á aðgerðum Ísarela þar því ekki hyllir undir samkomulag um lausn ísraelsks hermanns sem er í haldi herskárra Palestínumanna. Talsmaður Ísarelsstjórnar segir hann enn á lífi.

Um er að ræða Karni-landamærastöðina en þar hafa vöruflutningabílar frá Alþjóða Rauða krossinum farið um í dag. Fyrr í vikunni hafði verið ákveðið að opna fyrir flutninga þar í gegn í fjóra daga í þessari viku, stuttan tíma í senn, til að forða neyðarástandi á svæðinu. Ísraelar hafa neitað að yfirgefa Gazasvæðið fyrr en ísraelskur hermaður, sem er í haldi herskárra Palestínumanna, verði látinn laus. Þeir hafa þvertekið fyrir að verða við kröfum um að frelsa palestínska fanga í skiptum fyrir hann. Fyrir vikið hótuðu mannræningjarnir að myrða hermanninn en hafa þó eitthvað dregið í land með það. Þeir segjast á hinn bóginn ekki tilbúnir til frekari viðræðna um lausn hans og ætla ekki að láta neitt uppi um líðan hans. Talsmaður ísraelskra stjórnvalda sagði í dag að samkvæmt þeirra upplýsingum væri maðurinn enn á lífi en óttast var að hann hefði jafnvel þegar verið myrtur. Haniyeh, forsætisráðherra heimastjórnar Palestínumanna, hvatti þá sem halda hermanninum til að tryggja öryggi hans.

Alþjóðasamtök hafa krafist þess að hermaðurinn verði þegar látinn laus og þau hafa einnig hvatt Ísraelsher til að sýna stillingu. Stjórnvöld í Sviss saka Ísraela um að brjóta mannúðarlög með því að refsa Palestínumönnum öllum fyrir brot nokkurra þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×