Innlent

Fimm þúsund í Laugardalshöllinni í gærkvöldi

Rúmlega 5000 manns mættu til styrktar verndun íslenskrar náttúru í Laugardalshöllinni í gærkvöld enda ekki á hverjum degi sem Björk, Sigur Rós, Mugison, hinir bresku Damien Rice og Damon Albarn koma saman á Íslandi og telja í - allt í nafni náttúruverndar og gegn stóriðjuframkvæmdum og öðru raski á hálendinu.

Alls komu tvö hundruð listamenn fram á tónleikunum, ýmist með tónlistaratriði, gjörninga eða talað orð. Fyrrum brit popparinn, Blur goðið, Íslandsvinurinn og Guerillas meðlimurinn, Damon Albarn frumflutti nýtt lag ásamt Einari Erni Benediktssyni og hljómsveit hans Ghostigital. Lagið sem Albarn nefndi Aluminum, eða ál, fór vel í mannskapinn eins sést á þessum myndum. Sjálfur hafði Damon sagt að ef lagið myndi vekja lukku í Höllinni þá yðri það gefið út.

Það var eflaust við hæfi að hljómsveitin Egó, með Bubba sjálfan, í fararbroddi lokaði partíinu í gær. Bubbi - hokinn af reynslu - söng þar meðal annars lagið fjöllin hafa vakað. Táknrænt, að mati margra. Grímu Atlason tónleikahaldari kvaðst í samtali við NFS vera hæstánægður með tónleikana sem þóttu takast í alla staði vel. Hann sagði ljóst á mætingunni og viðbrögðum í gær að fólk væri komið með upp í háls af stóriðjuvæðingu landdsins og tilheyrandi náttúruspjöllum - tónleikagestir hefðu sýnt það í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×