Innlent

Samstaða náðist á launamálaráðstefnu sveitarfélaganna um að hækka allra lægstu launin verulega

Eftir launamálaráðstefnu sveitarfélaganna í dag stendur ekki til að opna kjarasamninga heldur er lagt upp með að sveitarfélögum verði heimilt að greiða laun umfram kjarasamninga. Samstaða náðist um að hækka allra lægstu launin verulega. Um eitthundrað leikskólakennarar mættu við upphaf ráðstefnunnar til að minna á slök launakjör sín.

Launamálaráðstefnan stóð í rúma fimm klukkutíma í dag. Margvísleg sjónarmið komu fram á sem launanefnd sveitarfélaganna ætlar að hafa til hliðsjónar þegar lausna verður leitað í kjaramálum. Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, formaður launanefndarinnar, sagði samstöðu hafa náðst um að hækka lægstu launin verulega og að það verði að finna leið til að taka á launamálum leikskólakennara. Leiðina til þess sagði hann ekki vera tilbúna og að hana þurfi að finna. Hann sagði leiðina þó ekki vera að samningar við hagsmunafélög starfsmanna sveitarfélaganna verði opnaðir. Sagði hann tillögu nefndarinnar vera að sveitarfélögunum yrði heimilt að greiða hærri laun en heimilað er í kjarasamningum. Gunnar sagði einnig horft til þeirra hækkana sem Reykjavíkurborg gerði við sína starfsmenn.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri sagðist hafa fengið svolítið kaldar kveðjur á ráðstefnunni en að hún þoli það vel. Sýndist henni sem að sátt væri að skapast um að hækka lægstu laun og kvaðst hún ánægð með að Reykjavíkurborg hafi tekið frumkvæði í þeim málum.

Hundrað leikskólakennarar mættu við upphaf fundarins í dag til að minna á sín mál en nú þegar hafa um fimmtíu sagt upp störfum vegna óánægju með launakjör.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×