Þorsteinn Pálsson og Jón Baldvin Hannibalsson höfðu lagt grunninn að stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks eftir þingkosningarnar 1991, meðan Alþýðuflokkurinn var enn í vinstristjórn og áður en Davíð Oddsson felldi Þorstein í formannskosningu í Sjálfstæðisflokknum.
Grunnurinn að ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks eftir þingkosningar 1991 var lagður talsvert fyrir kosningar. Össur Skarphéðinsson, sem tók sæti í stjórninni árið 1993, segir á vefsíðu sinni í dag frá því að formenn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks, þeir Jón Baldvin Hannibalsson og Þorsteinn Pálsson, hafi lagt grunninn að ríkisstjórnarsamstarfi flokkanna fyrir kosningar. Þorsteinn hafi því öðrum fremur lagt grunninn að samstarfi flokkanna og ekkert breyst þrátt fyrir formannsskipti í Sjálfstæðisflokknum í aðdraganda kosninganna.Þetta staðfestir Þorsteinn í samtali við NFS. "Þær aðstæður voru fyrir hendi að það var mjög stórt viðfangsefni sem blasti við og var ekki hægt að leysa með þáverandi stjórnarflokkum og kosningar breyttu í raun engu um að til þess að ljúka samningum við Evrópusambandið á þeim tíma þurftu Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn að taka höndum saman. Eitthvað höfðum við rætt það áður en ég hætti."