Innlent

Líkur á að íslenskum starfsmönnum Varnarliðsins fækki áfram

MYND/Teitur

Líkur eru á því að íslenskum starfsmönnum Varnarliðsins fækki áfram, þó svo samningar náist við Bandaríkjastjórn um varnarsamstarfið. Landhelgisgæslan hefur skoðað aðstöðu á Keflavíkurflugvelli undir starfsemi þyrlubjörgunarsveitarinnar.

Veigamesti þátturinn í innleggi Íslendinga í varnarmálaviðræðurnar er yfirtaka á verkefnum þyrlubjörgunarsveitarinnar. Kostnaðurinn myndi skipta milljörðum í fjárfestingum og rekstarkostnaður Landhelgisgælsunnar myndi aukast umtalsvert.

Þetta tilboð hefur átt sér aðdraganda enda hefur NFS heimildir fyrir því að Landhelgisgæslan hafi skoðað aðstöðu á Keflavíkurflugvelli, flugskýli og annað sem Gæslan myndi fá frá Bandaríkjamönnum ef þyrlubjörgunarsveitin þjónaði verkefnum fyrir herinn. Það er ekki ólíklegt að verulegur hluti reksturs þyrlsubjörgunarsveitarinnar yrði á Keflavíkurflugvelli í framtíðinni.

Enn liggur ekki fyrir hvers konar eðlisbreyting verður á hernaðarumsvifum ef samningar nást. Bandaríkjamenn vill flytja stjórn vallarins til flughersins frá flotanum sem hefur rekið herstöðina. Þetta myndi þýða talsverðan samdrátt í umsvifum á vallarsvæðinu, segja sérfræðingar, þótt ekki sé fyrir annað en að flugherinn er þekktur fyrir að gera þjónustusamninga utan hers fremur en að reka stoðþjóinustu sjálfur.

Þannig hefur NFS heimildir fyrir því að bandaríski flugherinn hafi verið búinn að ræða við sjúkrahúsið í Keflavík um þjónustu og ætlaði að loka sjúkrahúsi hersins á vellinum. Ef eftir gengur að flugherinn taki við rekstri vallarins má því vænta enn frekari fækkunar starfa fyrir varnarliðið þó að á móti komi ef til vill ný störf vegna úthýstra verkefna á svæðinu. Hermönnum hefur fækkað ört síðasta hálfan annan áratug og íslenskum starfsmönnum fækkar einnig jafnt og þétt. Í janúar voru þeir rúmlega 600 en voru tæplega 1100 í mars 1990.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×