Innlent

Bændur opna bú sín á „Beint frá býli deginum“

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Beint frá býli dagurinn verður haldinn sunnudaginn 17. ágúst um allt land.
Beint frá býli dagurinn verður haldinn sunnudaginn 17. ágúst um allt land. Aðsend

Bændur í hverjum landshluta munu opna bú sín fyrir gestum og gangandi á morgun, sunnudag á „Beint frá býli deginum” þar sem boðið verður upp á allskonar smakk og kynningu á vörum bænda og búaliðs.

„Beint frá býli dagurinn” er nú haldin í annað sinn en opið hús verður á nokkrum bæjum á morgun frá klukkan 13:00 til 16:00. 

Á Suðurlandi verður það hjá Hreppamjólk í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og á geitabúinu Háhóli í Nesjum í Hornafirði. Á Austurlandi er hægt að heimsækja bæinn Egilsstaði í Fljótsdal, sem er við hliðina á Óbyggðasetri Íslands, á Norðurlandi eystra er það bærinn Svartárkot í Bárðardal, á Norðurlandi vestra verður opið á Brúnastöðum í Fljótum í Skagafirði og á Vestfjörðum er það Sauðfjársetrið á Sævangi á Ströndum og á Vesturlandi verður opið hús hjá Grímsstaðaketi á Grímsstöðum í Reykholtsdal.

Hér má sjá hvar verður opið sunnudaginn 18. ágúst í landshlutunum.Aðsend

Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Beint frá Býli, segir mikla eftirvæntingu fyrir morgundeginum.

„Fólk er bara spennt að kynna Beint frá býli hugmyndafræðina fyrir landsmönnum og að byggja upp tengsl á milli íbúa og þeirra framleiðenda, sem eru nálægt þeim,” segir hún.

Oddný Anna segir að það séu um 120 lögbýli í samtökunum Beint frá býli og þeim fari sífellt fjölgandi.

„Það eru sífellt fleiri, sem byrja að vinna matvæli úr eigin afurðum og selja, það eikur virði og er bara skemmtilegt, bein tenging við neytendur og þarna er verið að búa til ýmislegt gómsætt, sem að fæst ekki að jafnaði í verslunum,” segir Oddný Anna.

Um 120 lögbýli um allt land eru nú í Beint frá býli samtökunum.Aðsend

Og Oddný Anna hvetur fólk eindregið til að mæta á morgun á Beint frá býli daginn og taka þátt í stemmingu dagsins.

„Já, við bara hvetjum sem flesta til að mæta með góða skapið og njóta dagsins með okkur.”

Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Beint frá býli samtakanna.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×