Innlent

Kanna megi auknar heimildir lögreglu til tálbeitunotkunar

MYND/E.Ól

Yfirlögregluþjónn í Reykjavík segir að velta megi því upp hvort auka þurfi heimildir lögreglu til að nota tálbeitur en segir slíkar breytingar þarfnast vandaðrar yfirferðar. Þingmaður óskar eftir utandagskrárumræðum á Alþingi um auknar heimildir til handa lögreglu eftir umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kompás um málið þar sem tálbeitur voru notaðar til að hanka barnaníðinga.

Í fréttaskýringaþættinum Kompás á NFS í gærkvöldi var fjallað leiðir níðinga til þess að nálgast ungmenni á netinu. Til þess að nálgast mennina var notuð tálbeita og sýndu rígfullorðnir menn vilja til kynlífsathafna með þrettán ára stúlku. Lögrelgan má ekki nota tálbeitur á sama hátt og gert var í þættinum.

Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að lögregla megi ekki nota tálbeitu nema brot liggi fyrir en ekki til að kalla fram brot sem ella hefði ekki verið framið. Það megi þó velta því fyrir sér hvort auka eigi heimildir lögreglu í þessum málum með einhverjum hætti þannig að menn eins og þeir sem birtust í Kompási náist. Hörður bendir þó á að jafnvel þótt menn gangi svo langt að setja sig í samband við ungar stúlkur þá hafi þeir ekki framið brot.

Hörður segir að almennt myndi lögregla ekki nota svona rannsóknarúrræði eingöngu í forvarnaskyni. Menn telji það ekki réttu leiðina. Hins vegar geti menn ímyndað sér að ef lögreglan væri inni á spjallþráðum myndi það fæla einhverja frá.

 

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, telur að endurskoða þurfi heimildir lögreglunnar til að nota tálbeitur með þessum hætti, með því að búa til atburðarás og nota hana til forvarna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×