Innlent

Fáklæddur á flókatöflum á Suðurlandsvegi

MYND/Vilhelm

Í mörgu var að snúast hjá lögreglumönnum í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli í liðinni viku og segir í dagbók lögreglunnar þar að sumir ökumenn hafi hagað akstri sínum líkt og kýr sem sleppt er út í fyrsta skipti á góðum vordegi. Þá óku lögreglumenn fram á fáklæddan karlmann á flókatöflum.

Níu ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu og sá sem hraðast fór var mældur á 138 km hraða á Suðurlandsvegi rétt austan við Hvolsvöll. Annar ökumaður var mældur á 135 km hraða á sömu slóðum nokkru seinna.

Aðfaranótt sunnudags óku svo lögreglumenn í eftirlitsferð fram á fáklæddan ungan karlmann á hlaupum í svarta myrkri á Suðurlandsvegi vestan við Landvegamót og stefndi maðurinn til vesturs. Maðurinn var dökkklæddur að ofan en í stuttbuxum og bleikum flókatöflum á fótum en berfættur. Karlmaðurinn var undir áhrifum áfengis en hann hafði orðið sundurorða við ferðafélaga sína og ákvað því að yfigefa þá við Hellu og hlaupa eða skokka til Reykjavíkur. Þegar þetta gerðist var 1 stigs frost. Unga karlmanninum var ekið á Selfoss en lögregla þar ætlaði að sjá til þess að koma honum áfram til Reykjavíkur í upphituðum lögreglubíl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×