Sport

Ánægður með framlag Cole

Eriksson var mjög sáttur við frammistöðu Joe Cole í kvöld
Eriksson var mjög sáttur við frammistöðu Joe Cole í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga var yfir sig ánægður með Joe Cole í sigrinum á Úrúgvæ í kvöld og sagði hann hafa borið af öðrum leikmönnum í leiknum. Cole lagði upp jöfnunarmark enska liðsins og skoraði sigurmarkið sjálfur.

"Joe var frábær í kvöld og það er ótrúlegt að sjá hversu mikið honum hefur farið fram á síðustu tveimur árum. Hann var fljótur, sterkur og útsjónarsamur og sinnti varnarhlutverki sínu vel líka. Ef hann heldur áfram að spila eins og hann gerði í kvöld hef ég svo sannarlega ekki áhyggjur af vinstri kantinum hjá okkur í framtíðinni," sagði Eriksson.

Cole sjálfur var nokkuð sáttur við leik enska liðsins, en hrósaði þeim Peter Crouch og Shaun Wright-Phillips fyrir að breyta gangi leiksins þegar þeir komu inná sem varamenn. "Við vorum þolinmóðir og það borgaði sig í lok leiksins, þó við hefðum mátt vinna þennan leik með meiri mun en raun bar vitni. Að mínu mati urðu þáttaskil þegar Shaun og Peter komu inná, þeir breyttu gangi leiksins og sprautuðu lífi í liðið," sagði Cole.

Varnarmaðurinn Wayne Bridge meiddist snemma í leiknum og var borinn útaf, en Eriksson segir að meiðsli hans séu ekki mjög alvarleg. "Hann fer í myndatöku á morgun, en ég hugsa að verði allt í lagi með hann. Það er kominn tími á að við förum að fá vinstri bakverðina okkar í lag," sagði Eriksson.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×