Viðskipti innlent

Standard & Poor’s setur Íbúðalánasjóð á athugunarlista

Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor’s hefur sett Íbúðalánasjóð á athugunarlista og segir horfurnar neikvæðar. Matsfyrirtækið gefur sjóðnum langtímaeinkunnina AA+ en segir ástæðuna fyrir matinu minnkandi hlutdeild sjóðsins á íbúðalánamarkaðnum. Bankar hér á landi hófu að bjóða íbúðalán í ágúst árið 2004 og hefur aukin hlutdeild þeirra orðið til þess að hlutdeild Íbúðalánasjóðs hafði minnkað mikið. Hlutdeild sjóðsins á íbúðalánamarkaðnum hafi verið um 80% árið 2003 en var tæpur helmingur í lok síðasta árs, að sögn matsfyrirtækisins. Þá segir í mati Standard & Poor’s að mælt hafi verið með því í janúar síðastliðnum að Íbúðalánasjóði verði breytt í heildsölubanka, þ.e. fjármálastofnun sem láni öðrum bönkum fé. Þrátt fyrir þetta sé fastlega búist við að Íbúðalánasjóður verði áfram undir ríkissjóði, sérstaklega þar sem um ákveðna tryggingu sé að ræða því lánveitingar til húsnæðiskaupa í dreifbýli, sér í lagi úti á landi, séu ótrygg. Á sama tíma staðfesti matfyrirtækið fyrri lánshæfiseinkunn Íbúðalánasjóðs fyrir langtímaskuldbindingar í íslenskum krónum, sem er AA-, og skammtímaskuldbindingar í íslenskri og erlendri mynt, sem er A-1+.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×