Innlent

Vonar að ekki komi til verkfalls

MYND/Valgarður

Formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna vonar að ekki komi til verkfalls hjá stéttinni síðar í mánuðinum. Deiluaðilar sátu á maraþonfundi í gær og nótt sem gefur ákveðnar vonir um að sátt náist í deilunni á næstunni.

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn samþykktu í gær að boða til verkfalls síðar í mánuðinum með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Ef samningar hafa ekki tekist þann 20. þessa mánaðar hefst tveggja daga verkfall og svo ótímabundið verkfall frá 27. mars.

Vernharð Guðnason, formaður landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segir niðurstöðuna ekki hafa komið á óvart. Hann hafi fundið fyrir algjörri eindrægni í hópi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og menn standi saman um að bæta kjör þeirra í þetta skipti.

Samninganefnd Landssambandsins og launanefnd sveitarfélaga sátu á maraþonfundi hjá ríkissáttasemjara sem lauk klukkan fimm í morgun en hann hófst klukkan eitt í gær. Þýðir þetta að það sé að þokast í samkomulagsátt í deilunni? Vernharð segir erfitt að tjá sig um viðræðurnar á meðan þær séu enn þá í gangi en fundartíminn gefi ákveðnar vísbendingar. Samninganefndirnar hittist aftur í dag klukkan 13 og hann voni að málin gangi upp.

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn voru svartsýnir á sættir fyrir um viku en aðspurður hvort hann sé bjartsýnni nú að samkomulag náist áður en verkfall skellur á segir Vernharð að hann hafi alltaf vonað og voni enn að það reyni ekki á verkfall. Samningar séu hins vegar ekki samningar fyrr en búið sá að skrifa undir og því verði menn að gæta stillingar fram að því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×