Erlent

Geimstöðvar á tunglinu í bígerð

Bandaríska geimferðastofnunin áformar að reisa geimstöð á tunglinu þar sem geimfarar geta dvalið vikum og jafnvel mánuðum saman. Vísindamenn vonast til að ný jarðvegssýni frá tunglinu geti varpað ljósi á hvernig jörðin varð til.

Rúm þrjátíu og sex ár eru liðin síðan jarðarbúar stigu fæti sínum á tunglið í fyrsta sinn en slíkar ferðir eru fyrir löngu aflagðar. Nú ráðgerir bandaríska geimferðastofnunin NASA að hefja undirbúning að því að koma mönnum til tunglsins á ný og láta þá leita af vísbendingum um tilurð jarðarinnar í hinum myrku mánafjöllum. Vísindamenn vonast nefnilega til að úr jarðveginum á tunglinu megi lesa mikilvægar upplýsingar um þessi efni.

Ekki er búist við að af tunglferðunum verði fyrr en árið 2018 og áður en sýnatökur og önnur vísindastörf geta hafist fyrir alvöru verða geimfararnir að setja saman varanlega geimstöð á tunglinu. Þar munu þeir geta hafst við í góðu yfirlæti vikum og jafnvel mánuðum saman. Líkt og Armstrong forðum verða þeir þó að reka nefið annað slagið út í lofttæmið og safna ryki sem gæti innhaldið sjálfa lífsgátuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×