Innlent

Kokteilsósubað og lundadiskódans

Sumar konur eru sjúkar í súrar gúrkur, aðrar hafa unun af því að fara í kokteilsósubað. Lundar geta líka dansað diskó og múmíur byggt sér kofa. Í Nýlistasafni Íslands í kvöld var hægt berja augum ýmislegt sem sjaldnast birtist almenningi. Það voru nemendur Listaháskóla Íslands sem buðu upp á gjörning í Nýlistasafninu og þar kenndi ýmissa grasa.

Á einum stað var kona að spila á streng á meðan að önnur lá á gólfinu og engdist um. Þar gaf einnig að líta múmíu sem einhverra hluta vegna þurfti á gasgrímu að halda á meðan hún byggði sér bústað. Í herbergi inn af salnum mátti sjá annars konar gjörning það er að segja hann var ekki lifandi heldur annars vegar var honum varpað á vegg og hins vegar mátti horfa á einn á sjónvarpsskjá sem komið hafði verið fyrir í lofti herbergisins. Á borði inn í sal voru fjórar ungar konur sem lýstu yfir löngun sinni í súrar gúrkur og að þeim gjörningi loknum fór stúlka ein í bað sem var óvenjulegt fyrir þær sakir að það var kokteilsósubað. Á meðan gæddi hún og vinkona hennar sér á frönskum kartöflum.

Maður hefði haldið að lundar hefðu ekki gaman af diskótónlist en á Nýlistasafninu mátti sjá einn sem var greinilega að fíla sig í botn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×