Sport

Hefur áhyggjur af Jermain Defoe

Jermain Defoe gæti þurft að sitja heima í sumar þegar félagar hans í enska landsliðinu verða í eldlínunni á HM í Þýskalandi
Jermain Defoe gæti þurft að sitja heima í sumar þegar félagar hans í enska landsliðinu verða í eldlínunni á HM í Þýskalandi NordicPhotos/GettyImages

Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga, segist hafa áhyggjur af því að löng seta framherjans Jermain Defoe á varamannabekk Tottenham undanfarið, gæti kostað hann sæti í enska landsliðinu á HM í sumar. Framherjinn ungi hefur verið á bekknum hjá Tottenham lengst af á þessu ári eftir að Robbie Keane vann sér fast sæti í byrjunarliði Lundúnaliðsins.

"Ég hef dálitlar áhyggjur af Defoe, því hann situr mikið á varamannabekknum hjá Tottenham og ég á frekar erfitt með að velja menn í landsliðið ef þeir hafa verið mikið meiddir eða eru alltaf á varamannabekknum hjá liðum sínum, því þá eru þeir tæplega í góðu leikformi," sagði sá sænski.

Martin Jol, stjóri Tottenham, segir að það sé því miður ekki í sínum verkahring að hafa áhyggjur af því hvort leikmenn hans komist í landsliðið eður ei. "Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu er auðvitað mikill viðburður, en ég get ekki verið að hafa áhyggjur af því hvort mínir menn eru þar að spila eða ekki þegar ég er í sumarfríi á Spáni með fjölskyldu mína. Ég vel auðvitað þá sem ég tel að hjálpi mínu liði best til að vinna og Jermain hefur aldrei kvartað um að vera ekki í byrjunarliðinu, því hann veit að það myndi bara sýna hinum leikmönnunum óvirðingu," sagði Jol.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×