Sport

Rokklag um fótboltamann slær í gegn á Englandi

Lloyd Owusu er hér í baráttunni um boltann við Hermann Hreiðarsson í leik Brentford og Charlton í ensku bikarkeppninni í síðasta mánuði. Hermann lék einmitt áður hjá Brentford.
Lloyd Owusu er hér í baráttunni um boltann við Hermann Hreiðarsson í leik Brentford og Charlton í ensku bikarkeppninni í síðasta mánuði. Hermann lék einmitt áður hjá Brentford.

Eitt vinsælasta rokklagið í Bretlandi þessa dagana fjallar um sóknarmann enska 2. deildarliðsins Brentford, Lloyd Owusu. Þannig er í pottinn búið að bassaleikari hinnar ævafornu rokksveitar Status Quo, John 'Rhino' Edwards, er mikill stuðningsmaður Brentford sem leikur í C-deildinni í knattspyrnu á Englandi.

'Rhino' samdi á dögunum lagið "Owusu, The One And Only" og hefur því verið halað niður rúmlega 8 þúsund sinnum af heimasíðu félagsins síðan lagið var sett þar inn fyrir hálfum mánuði. Venjulega myndi slíkt niðurhal duga til að koma lagi inn á topp 20 á breska vinsældarlistanum en þar sem fótboltavefsíður eru ekki viðurkenndar við útreikninga á vinsældarlistanum mun það líklega ekki koma fram í sjónvarpsþættinum Top of the Pops.

Lagið er grípandi og fjörugur rokksmellur. "Nashyrningurinn" eða "Rhino" sem er viðurnefni bassaleikarans, lokaði sig inni í stúdíóinu sínu í viku til að klára lagið og fínpússa. Viðlagið "The on and only" ómar á heimaleikjum Brentford þessa dagana og verður eflaust hvetjandi fyrir sóknarmanninn sem reyndar hefur ekki tekist að skora nema 10 mörk fyrir liðið á tímabilinu.

Rhino fannst sem stuðningsmenn liðsins einblíndu ekki nóg á kosti leikmannsins sem honum sjálfum finnst gefa allt sitt hjarta fyrir félagið. Brentford er í 2. sæti í C-deild (League 1) og í mikilli baráttu um að komast upp í Championship deildina en liðið er aðeins 6 stigum frá toppsætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×