Innlent

Lífeyrisgreiðslurnar tvöfaldast

Lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna til hvers lífeyrisþega eiga eftir að tvöfaldast á næstu þremur áratugunum, samkvæmt nýrri skýrslu sem unnin var fyrir Samtök atvinnulífsins. Heildargreiðslur sjóðanna eiga eftir að fimmfaldast á sama tímabili.

Samtök atvinnulífsins kynntu í morgun skýrslu sem þau létu vinna fyrir sig um stöðu og framtíðarþróun lífeyrissjóðakerfisins. Samkvæmt henni er mikilla breytinga að vænta á lífeyrissjóðakerfinu, hvort tveggja í uppbyggingu þess og hvaða áhrif það hefur á pyngju lífeyrisþega. Skýrsluhöfundar gera ráð fyrir að lífeyrissjóðum fækki verulega. Þeir voru 48 talsins í árslok 2004 og tóku 38 þeirra við iðgjöldum en gangi spár skýrsluhöfunda eftir verða lífeyrissjóðirnir ekki fleiri en fjórir eða fimm innan nokkurra ára.

Það er ekki aðeins fjöldi lífeyrissjóða sem á eftir að breytast heldur á hlutur þeirra í lífeyrisgreiðslum eftir að aukast mjög mikið og yfirgnæfa Tryggingastofnun ríkisins. Þannig er því spáð að ellilífeyrisgreiðslur úr sjóðunum eigi eftir að fara úr 21 milljarði króna á síðasta ári í tæpa hundrað milljarða króna árið 2040. Á sama tíma fellur hlutdeild Tryggingastofnunar úr nær helmingi ellilífeyrisgreiðslna í fjórðung þeirra. Samhliða þessu á meðalellilífeyrir landsmanna eftir að hækka mjög. Nú er gert ráð fyrir að hann nemi 80 þúsund krónum á mánuði að meðaltali hjá hverjum nýjum ellilífeyrisþega en hann á eftir að tvöfaldast á næstu rúmlega þrjátíu árum og verður rúmlega 160 þúsund krónur árið 2040.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×