Viðskipti innlent

Verðlagning hlutabréfa sanngjörn

Greiningardeild Landsbankans segir verðmat á innlendum hlutabréfum sanngjarna í dag. Verðmatskennitölur styðja þessa niðurstöðu, að sögn deildarinnar.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að til skemmri tíma sé búist við að hlutabréfamarkaðurinn verði áfram mjög viðkvæmur fyrir öllum fréttum varðandi lánshæfi Íslands og íslensku bankanna. Þetta muni væntanlega ekki breytast fyrr en ró skapast um fjármögnun bankanna á alþjóða fjármálamörkuðum. Til lengri tíma séu horfur á hlutabréfamarkaði góðar.

Greiningardeildin segir jafnframt að samanlagt markaðsvirði félaganna 17 sem skráð eru í Kauphöllinni sé 86 prósent af heildarvirði markaðarins. Deildin spáir hins vegar ekki um afkomu Landsbankans, en með honum sé markaðsvirðið 99 prósent af heildarvirði markaðarins.

Afkomuspá fyrir árið í heild gerir ráð fyrir að hagnaður allra félaga í Kauphöllinni, nema TM og HB Granda, aukist á milli ára. Stórum hluta aukningarinnar má rekja til ytri vaxtar. Í krónum talið sé gert ráð fyrir mestri hagnaðaraukningu hjá FL Group (3,5 milljarðar króna eða sem nemur 20 prósentum), Bakkavör (2,4 milljarðar króna eða sem nemur 66 prósentum) og Actavis (2 milljarðar króna eða sem nemur 31 prósenti). Þá gerir greiningardeildin ráð fyrir 3. milljarða króna afkomubata hjá Icelandic Group, en á síðasta ári skilaði fyrirtækið 1,2 milljarða króna tapi. Hlutfallslega er gert ráð fyrir að hagnaður Alfesca aukist mest á milli ára, eða um 540 prósent í krónum talið. Þá er búist við að hagnaður Mosaic Fashions aukist um 126 prósent.

Deildin gerir ráð fyrir því að hagnaður TM dragist saman um 57 prósent á milli ára og nemi 3,1 milljarði króna á þessu ári. Ástæða samdráttarins er sú að skilyrði á hlutabréfamarkaði voru óvenju hagstæð á síðasta ári og sé því ekki gert ráð fyrir jafn hagstæðu ári í ár. Þá hefur tryggingastarfsemin hefur verið í járnum um nokkurt skeið og hagnaður borinn uppi af fjármagnstekjum.

Búist er við að HB Grandi muni skila rekstrartapi fyrir árið í heild. Skýringin liggur í gengistapi erlendra skulda, en sjóðstreymi félagsins styrkist mjög á milli ára.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×