Lífið

Geislaplata með tónlistinni komin út

Geislaplata með tónlistinni úr Litlu hryllingsbúðinnu er komin í verslanir. Útgefandi er útgáfufélagið 21 12 Culture Company í samvinnu við Leikfélag Akureyrar en Litla hryllingsbúðin var frumsýnd hjá LA í lok mars. Söngleikurinn sló í gegn snemma á níunda áratugnum þegar hann var frumsýndur og hefur notið mikilla vinsælda síðan. Upptökustjórn og útsetningar laganna á geislaplötunni voru í höndum Kristjáns Edelstein en hann er jafnframt tónlistarstjóri sýningar Leikfélags Akureyrar. Geislaplatan hefur meðal annars að geyma hina frábæru útgáfu af laginu "Gemmér" með Andreu Gylfadóttur, í hlutverki plöntunnar, auk annarra ódauðlegra perlna þessa sívinsæla söngleiks. Þar á meðal leynast lög sem ekki hafa komið út áður í tengslum við fyrri uppsetningar sýningarinnar hér á landi. Öll tónlistin úr verkinu er hér sem sagt samankomin fyrir alla þá sem vilja framlengja fjörið – út í bíl - eða heim í stofu. Mikið álag hefur verið hjá útgefanda vegna geislaplötunnar og virðist vera sem margir bíði spenntir – bæði norðan og sunnan heiða. Tafir urðu á komu hennar til landsins og hafa því verið snör handtök undanfarna daga við að koma henni í verslanir um land allt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×