Innlent

Fjórir í gæsluvarðhaldi vegna stórs fíkniefnamáls

Fjórir menn, þrír Íslendingar og einn Hollendingur, voru úrskurðaðir, í Héraðsdómi Reykjavíkur, í þriggja vikna gæsluvarðhald á föstudaginn langa vegna eins stærsta fíkniefnamáls sem komið hefur upp hérlendis. Gríðarlegt magn fíkniefna fannst í iðnaðarhúsnæði í Reykjavík á fimmtudagskvöld.

Lögreglan í Reykjavík rannsakar málið en það var samvinna lögreglunnar og tollgæslunnar sem varð til þess að efnin fundust. Ekki náðist í forsvarsmenn fíkniefnadeildarinnar í Reykjavík í dag. Samkvæmt heimildum er málið trúlega eitt það stæsta sem upp hefur komið á Íslandi til þessa en um er að ræða gífurlegt magn amfetamíns, jafnvel tugi kílóa en eins fannst einhvert magn af hassi. Það að mennirnir fjórir voru úrskurðaðir í þriggja vikna gæsluvarðhald strax við upphaf rannsóknar staðfestir að málið sé stórt. Lögreglan kom að þremur mannanna þar sem þeir voru að tæma fíkniefnin úr bíl í iðnaðarhúsi á Höfðanum í Reykjavík á fimmtudagskvöld en fjórði maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi er eigandi bílsins. Einn mannanna var dæmdur í níu ára fangelsi árið 2000 fyrir þátt sinn í stóra fíknaefnamálinu svokallaða og var hann því á reynslulausn eftir að hann hafði afplánað um helming fangelsisvistarinnar. Þá er einn fjórmenningana þekktastur fyrir að hafa verið framseldur hingað til lands frá Hollandi vegna hvarfs Valgeirs Víðissonar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×