Sport

Biður Uefa að breyta reglum

Það yrði ekki sérlega skemmtilegt fyrir lið Tottenham ef það næði að slá grönnum sínum við í ensku úrvalsdeildinni en þyrfti svo að gefa þeim eftir Evrópusætið
Það yrði ekki sérlega skemmtilegt fyrir lið Tottenham ef það næði að slá grönnum sínum við í ensku úrvalsdeildinni en þyrfti svo að gefa þeim eftir Evrópusætið NordicPhotos/GettyImages

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham Hotspurs hefur sent evrópska knattspyrnusambandinu beiðni um að reglunum um Meistaradeildarsæti í úrvalsdeildinni verði breytt, en svo gæti farið að Tottenham kæmist ekki í hina eftirsóttu Meistaradeild á næsta tímabili þó svo að liðið nái fjórða sætinu í ensku úrvalsdeildinni í vor.

Mikið var rætt um kerfið sem farið er eftir í fyrra þegar útlit var fyrir að Liverpool kæmist í Meistaradeildina á kostnað granna sinna í Everton, en nú er nákvæmlega sama staða komin upp hjá grönnunum og erkifjendunum í norðurhluta Lundúna.

Ef Arsenal vinnur sigur í Meistaradeildinni í vor, mun liðið samkvæmt nýjum reglum fá að fara aftur í keppnina að ári og það myndi þýða að Tottenham

sæti eftir með sárt ennið þó liðið hafnaði fyrir ofan granna sína í töflunni.

Aðeins fjögur Meistaradeildarsæti eru í boði í ensku úrvalsdeildinni og eins og staðan er í dag eru Chelsea, Manchester United og Liverpool örugg með sín sæti, en baráttan um lokasætið stendur á milli Tottenham og Arsenal. 

Tottenham hefur sem stendur fjögurra stiga forskot á Arsenal í úrvalsdeildinni, en Arsenal á leik til góða. Eins og til að hleypa enn meiri spennu í einvígi liðanna á lokasprettinum - eiga liðin svo leik á Highbury á laugardaginn, svo það er ekki laust við að spennan sé í hámarki í Norður-Lundúnum þessa dagana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×