Innlent

Sýknaðir vegna banaslyss að Kárahnjúkum

Héraðsdómur Austurlands sýknaði í dag fimm yfirmenn að Kárahnjúkum vegna ákæru um að þeir bæru ábyrgð á því að ungur maður lést í vinnslysi við Kárahnhjúkastíflu í mars 2004.

Maðurinn var við störf ofan í Hafrahvammsgljúfri um nótt þegar stór grjóthnullungur féll á hann með þeim afleiðingunm að hann lést. Eftir rannsókn yfirvalda voru gefnar út ákærur á hendur fimm mönnum. Það voru framkvæmdastjóri Arnarfells, sem var gefið að sök að hafa sent hinn látna og annan mann til vinnu í gljúfrinu þótt honum væri kunnugt um hættu af grjóthruni.

Þá voru tveir yfirmenn hjá verktakafyrirtækinu Impregilo og tveir yfirmenn hjá öryggiseftirlitsfyrirtækinu VIJV ákærðir fyrir að hafa ekki gert öryggisáætlun og sérstakt áhættumat vegna vinnu við virkjunarsvæðið og um að hafa ekki gert viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi starfsmanna vegna bráðrar hættu á grjóthruni í gljúfrinu, t.d. með neti.

Dómurinn féllst ekki á að framkvæmdastjóri Arnarfells hefði vitað af hættunni af grjóthruni enda hefði hann ekki verið á svæðinu síðustu tvær vikurnar fyrir slysið. Þá þótti ekki sannað að hann hefði sent hinn látna til vinnu nóttina örlagaríku. Þá féllst dómurinn heldur ekki á að fjórmenningarnir hjá Impregilo og VIJV hefðu vantrækt það að gera áhættumat og þá þykir ekki sannað að notkun neta gegn grjóthruni hefði breytt nokkru í þessu tilviki.

Málsvarnarlaun og sakarkostnaður greiðast úr ríkissjóði, samtals um 15 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×