Innlent

Boða setuverkfall og fjöldauppsagnir

MYND/Róbert

Ófaglærðir starfsmenn á dvalar- og hjúkrunarheimilum ákváðu, á fundi sínum í dag, að boða til viku setuverkfalls sem hefst nú á miðnætti. Þeir eru ósáttir við ákvarðanir forsvarsmanna heimilanna um að hækka laun einhliða og talsmaður starfsmanna býst við fjöldauppsögnum á næstunni.

Ófaglærðir starfsmenn á 10 dvalar- og hjúkrunarheimilum á suðvesturhorni landsins komu saman til fundar í dag til að ræða þá stöðu sem upp er komin. Eins og kunnugt er ákváðu forsvarsmenn heimilanna einhliða að hækka laun þeirra til jafns við laun starfsmanna sveitarfélaga í sams konar störfum en launahækkanirnar koma á lengri tíma en starfsmenn vildu. 14 dvalarheimili voru upphaflega í hópnum en starfsmenn heimilanna Eirar og Skjóls, Áss og Skógarbæjar ákváðu að falla frá aðgerðum og samþykkja boðið.

Ófaglærðir starfsmenn á öðrum heimilum ákváðu hins vegar í dag að halda til streitu kröfum sínum og boða setuverkfall í kvöld. Þá var ákveðið á fundinum að grípa til uppsagna á morgun. Setuverkfallið hefst á miðnætti og þá munu starfsmenn líkt og í fyrri setuverkföllum aðeins sinna brýnustu verkefnum á heimilunum tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×