Innlent

Rætt hvort halda eigi aðgerðum áfram á Hrafnistu

MYND/Róbert

Neyðarástand skapast á dvalar- og hjúkrunarheimilum ef ekki semst við ófaglært starfsfólk á allra næstu dögum. Deilan strandar á svari frá fjármálaráðherra segir formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Nú klukkan hálfeitt var boðað til neyðarfundar á Hrafnistu í Reykjavík þar sem ekki er samstaða meðal starfmannanna um hvort halda eigi setuverkfalli til streitu.

Kjaradeila ófaglærðra starfsmanna er hlaupin í hnút sem aðeins fjármálaráðherra getur leyst, segir Jóhann Árnason, formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Hann segir fyrirtækin ekki geta samið um hækkun án þess að fá staðfestingu á því frá fjármálaráðuneytinu að fjárveiting fáist til hækkananna.

Hann segir mikið mæða á öllu starfsfólki í dag, hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og öðrum, auk þess sem óskað hefur verið eftir að aðstandendur hlaupi undir bagga eftir bestu getu. Einn dagur hafi verið erfiður, tveir dagar nær ómögulegir en að einfaldlega sé ekki hægt að búa við þetta ástand í heila viku, eins og aðgerðirnar sem hófust í nótt stefna í.

Ákveðið var að boða til neyðarfundar nú klukkan hálfeitt eftir í ljós kom að ekki var samstaða meðal starfsmanna Hrafnistu í Reykjavík um aðgerðirnar. Þar verður rætt hvort taka eigi tilboði Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um launahækkanir eða halda áfram aðgerðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×