Viðskipti erlent

Olíuverð lækkaði

Mynd/AFP

Olíuverð lækkaði um rúman dal á helstu mörkuðum í dag í kjölfar þess að orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna greindi frá því í vikulegri greinargerð sinni að olíubirgðir í landinu hefðu aukist. Þetta er annar dagurinn í röð sem olíuverð lækkar.

Verð á olíu, sem afhent verður í næsta mánuði, lækkaði um 1,18 Bandaríkjadali á mörkuðum í New York í Bandaríkjunum og stendur verðið nú í 71,10 dollurum á tunnu. Verðið lækkaði um 2,33 dali á markaðnum í gær.

Þá lækkaði jafnframt verð á Norðursjávarolíu á markaði í Lundúnum í Bretlandi um 1,02 Bandaríkjadali og stendur það í 71,63 dollurum á tunnu.

Árásir skæruliða á olíuvinnslustöðvar í Nígeríu og vaxandi spenna vegna kjarnorkuáætlunar Írana er ástæða þess að heimmarkaðsverð á olíu hefur hækkað síðustu vikurnar. Íranar framleiða mikið magn af olíu og gæti svo farið að þeir dragi úr framleiðslu sinni verði gripið til refsiaðgerða gegn þeim vegna kjarnorkuáætlana þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×