Sport

Ruud strunsaði í burtu og var ekki með

Undarleg uppákoma átti sér stað 3 klukkutímum fyrir leik Man Utd og Charlton í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Sóknarmaðurin Man Utd, Ruud van Nistelrooy strunsaði þá burt frá Old Trafford með takkaskóna sína í hönd og var ekki í leikmannahópi liðsins sem vann 4-0 sigur í þessum lokaleik sínum á tímabilinu.

Fljótlega var útbúin yfirlýsing af félaginu sem í sagði að Nistelrooy væri farinn heim og yrði ekki með í leiknum gegn Charlton. "Við munum ekki tjá okkur frekar um málið þar sem við erum að einbeita okkur að leiknum gegn Charlton." voru lokaorðin í þessari stuttu tilkynningu sem fjölmiðlar á Englandi virðast á einu máli um að túlki endalok Hollendingsins hjá félaginu.

Louis Saha og Giuseppe Rossi léku saman í framlínunni hjá Man Utd í dag og virtist liðið ekki sakna Nistelrooy hið minnsta. Þrálátur orðrómur hefur verið uppi um að Nistelroy og stjórinn, Sir Alex Ferguson, hafi átt í deilum í vetur og nánast öruggt sé að sóknarmaðurinn sé á förum frá Man Utd í sumar. Hann hefur vermt varamannabekkinn meira en hann hefur haft lyst á og allt bendir til þess að það hafi eitthvað með stöðu mála að gera.

Nistelrooy sagði í síðustu viku að hann myndi leika í kveðjuleik Man Utd fyrir Roy Keane í næstu viku en í ljósi nýjustu tíðinda er allt í lausu lofti með framvindu mála. Flest virðist þó benda til þess að Ruud hafi leikið sinn síðasta leik með Man Utd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×