Innlent

Jónas við stýrið, segir sonur hans

Hljóðupptökur með frásögn ellefu ára gamals sonar Jónasar Garðarssonar, formanns Sjómannasambands Reykjavíkur, voru spilaðar fyrir Héraðsdómi um klukkan þrjú í dag. Drengurinn segist hafa verið sofandi þegar báturinn strandaði á Skarfaskeri en greindi frá því að faðir hans hefði verið við stýri þegar lagt var úr höfn og í stýrissæti þegar hann kom upp eftir að bátinn steytti á skerinu. Hann sagði einnig að hann vissi ekki til þess að annar en faðir hans hefði stýrt bátnum nokkurn tímann.

Drengurinn sagðist svo hafa vaknað við óp og rétt á eftir hafi Friðrik Hermannsson, sem fórst í slysinu, fallið niður í lúkar og á fætur hans. Drengurinn sagði að Friðrik hefði þá verið látinn, hann hafi þurfti að ýta honum af sér til að komast upp í bát til hinna skipverjanna. Þar segist drengurinn hafa séð móður sína og Matthildi Harðardóttur, sem síðar drukknaði, þar sem þær sátu við borð. Faðir hans hafi aftur á móti verið við stýrið. Matthildur hafi þessu næst hlaupið niður í lúkar til að vitja Friðriks en það var í síðasta sinn sem drengurinn sá hana á lífi. Drengurinn sagðist svo lítið muna fyrr en hann og móðir hans hafi verið upp á kilinum eftir að bátinn hvolfdi. Þá hafi hann séð Matthildi fljóta látna í sjónum nálægt.

Jónas Garðarsson er ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Við þingfestingu neitaði hann sök en greindi frá því að Matthildur, ekki hann sjálfur, hefði verið við stýri. Harpa Helgadóttir, eiginkona Jónasar, greindi frá því við lögreglu skömmu eftir að slysið átti sér stað að Jónas hefði verið við stýri frá upphafi ferðarinnar til enda. Þeim framburði breytti hún 5. maí og bar við minnisleysi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×