Innlent

Ekkert minnst á álverið í Straumsvík í stefnuskránni

Álverið í Straumsvík
Álverið í Straumsvík MYND/Vísir

Öllum börnum í Hafnarfirði sem náð hafa átján mánaða aldri verður tryggð leikskólavist á næsta kjörtímabili, ef markmið Samfylkingarinnar í bænum ná fram að ganga. Ekkert er minnst á framtíð álversins í Straumsvík í stefnuskrá flokksins fyrir næstu fjögur ár.

Samfylkingin í Hafnarfirði kynnti stefnu- og verkefnaskrá sína fyrir næstu fjögur ár á kosningaskrifstofu sinni við Strandgötuna í dag. Þar er meðal annars lögð áhersla á að treysta enn frekar fjárhagsstöðu bæjarins og greiða niður skuldir. Þá hyggst flokkurinn hefja byggingu nýs hjúkrunarheimilis, bjóða upp á fjölbreytta búsetukosti fyrir aldraða og koma upp gervigrasvöllum við alla grunnskóla. Aðspurður telur Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar og oddviti Samfylkingarinnar, að þetta þýði ekki að nauðsynlegt sé að draga saman á einhverjum sviðum rekstursins. Meirihlutinn í bæjarstjórn hafi náð að efla og styrkja stöðu bæjarins á kjörtímabilinu þannig að vel sé hægt að sækja fram með margar nýjungar, líkt og gert hafi verið á síðustu fjórum árum.

Athygli vekur að ekkert er minnst á framtíð álversins í Straumsvík í stefnuskrá Samfylkingarinnar í Hafnarfirði fyrir næstu fjögur ár. Lúðvík segir það helgast af því að svo mörgu sé enn ósvarað í því máli. Þar á meðal sé deiliskipulag óafgreitt hvað viðvíkur umhverfis- og mengunarmálum auk þess sem eftir á að ganga frá hlutum varðandi fjárhagsleg samskipti og greiðslur frá álverinu til bæjarins, ef af stækkun yrði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×