Innlent

Útlit fyrir að komið verði til móts við launakröfur

Útlit er fyrir að komið verði til móts við launakröfur ófaglærðra starfsmanna á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum sem eru í eigu ríkisins eða þar sem ríkið greiðir laun. Starfsmenn á sumum stofnananna ræða hvort hætta eigi við fyrirhuguð setuverkföll sem boðuð hafa verið.

Greint var frá því á vef Starfsgreinasambandsins í gær að samninganefnd ríkisins hefði heimilað forstöðumönnum á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum víða um land að hækka laun starfsmanna sinna. Um er að ræða stofnanir sem heyra beint undir ríkið en starfsmenn við umönnun, ræstingar og í eldhúsi fara fram á sambærileg laun og starfsmenn sveitarfélaga í sambærilegum störfum.

Fyrir tæpum tveimur vikum var ákveðið að hækka laun ófaglærðra á sjálfseignarstofnunum og samkvæmt Signýju Jóhannesdóttur, sviðsstjóra opinberra starfsmanna hjá Starfsgreinasambandinu eiga starfsmenn á öldrunar- og heilbrigðisstofnunum víða um land, sem heyra beint undir ríkið, að fá svipaðar hækkanir í gegnum stofnanasamninga. Hækkanirnar nemi um 12,55 prósentum frá 1. maí og fjórum prósentum 1. september.

Signý segist vona að lausn sé í sjónmáli en enn eigi eftir að gera stofnanasamningana og ekkert sé enn í hendi. Óvíst sé hvort starfsmönnum líki það sem boðið verði upp á. Ekki náðist í Gunnar Björnsson, formann samninganefndar ríkisins, vegna málsins.

Starfsmenn á Elliheimilinu Víðihlíð í Grindavík og á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafa boðað setuverkfall á morgun en á báðum stöðum er nú verið að ræða hvort það eigi að aflýsa því í ljósi nýjustu tíðinda. Eins funda starfsmenn á heilbrigðisstofnunum annars staðar á landinu næstu daga til þess að taka afstöðu til breytinganna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×