Sport

Chris Sutton farinn frá Birmingham

Chris Sutton náði sér aldrei á strik fyrir Birmingham
Chris Sutton náði sér aldrei á strik fyrir Birmingham NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn Birmingham hafa ákveðið að endurnýja ekki samning framherjans Chris Sutton og verður hann því laus allra mála í sumar og er frjálst að yfirgefa félagið. Birmingham er sem kunnugt er fallið í 1. deildina, en þó miklar vonir hafi verið bundnar við komu Sutton á sínum tíma, náði hann sér aldrei á strik með liðinu og skoraði aðeins eitt mark í ellefu leikjum.

Sutton átti við meiðsli að stríða lengst af veru sinni hjá Birmingham og það kann að hafa sett strik í reikninginn fyrir hinn 33 ára gamla framherja, sem var iðinn við kolann hjá liðum eins og Norwich, Blackburn og Chelsea.

Hann kom til Birmingham frá skoska liðinu Celtic í vetur og þegar hann skrifaði undir samninginn á sínum tíma, sagði félagi hans í framlínu Birmingham, Emile Heskey, að það væri til marks um að stjórn félagsins ætlaði sér ekkert hálfkák í baráttunni í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×