Viðskipti erlent

Deutsche Börse býður í Euronext

Mynd/AFP
Þýska kauphöllin, Deutsche Börse, gerði í dag tilboð í samevrópa hlutabréfamarkaðinn Euronext. Tilboðið hljóðar upp á 11 milljarða Bandaríkjadali, sem er 700 milljónum dölum meira en kauphöllin í New York (NYSE) í Bandaríkjunum bauð í hlutabréfamarkaðinn.

Að sögn Deutsche Börse munu markaðirnir renna saman í eina öfluga kauphöll með höfuðstöðvar í Frankfurt. Í fyrra tilboði þýsku kauphallarinnar í Euronext var gerð krafa um að höfuðstöðvarnar yrðu í Frankfurt en stjórn markaðarins hafði lýst sig andsnúna því. Óvíst er hver niðurstaðan verður en Serge Harry, einn yfirmanna Euronext, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, að stjórnin hefði fjallað um tilboð þýsku kauphallarinnar um síðustu helgi og ákveðið að taka því ekki. Stærsti hluthafinn í Euronext, The Children's Investment Fund, sem á 10 prósent í markaðnum, hefur hins vegar lýst yfir ánægju með tilboð Deutsche Börse.

Hluthafar í Euronext, sem hefur útibú í Amsterdam, París, Brussel og Lissabon, hittast til fundar í Amsterdam í dag þar sem bæði kauptilboðin verða rædd. Hluthafarnir lýstu því hins vegar yfir í gær að þeim litist vel á kauptilboð NYSE.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×