Viðskipti erlent

Arcelor rennur saman við Severstal

Guy Dolle og Joseph Kinch, hæstráðendur hjá Arcelor, ásamt Alexey Mordashov, eiganda Severstal í höfuðstöðvum Acelor í Lúxemborg í dag.
Guy Dolle og Joseph Kinch, hæstráðendur hjá Arcelor, ásamt Alexey Mordashov, eiganda Severstal í höfuðstöðvum Acelor í Lúxemborg í dag. MYND/AFP

Alþjóðlega stálfyrirtækið Arcelor greindi frá því í dag að það ætli að renna saman við rússneska stálfyrirtækið Severstal. Ákvörðunin er sögð viðbrögð fyrirtækisins við óvinveittu yfirtökutilboði breska stálframleiðandans Mittal í Arcelor.

Að sögn breska ríkisútvarpsins mun Arcelor eignast 68 prósenta hlut í sameinuðu fyrirtæki en milljarðamæringurinn Alexey Mordashov, eigandi Severstal, mun eiga 32 prósent. Hann er jafnframt sagður hafa náin tengsl við stjórnvöld í Rússlandi.

Fjármálasérfræðingar í Rússlandi segja að án góðra tengsla við stjórnvöld hafi Mordashov aldrei fengið leyfi til samstarfs við Arcelor.

Sameinað fyrirtæki mun eftir sem áður starfa undir nafni Arcelor en búist er við að samruna fyrirtækjanna ljúki í enda júlí í sumar. Að honum loknum verður til eitt stærsta stálfyrirtæki í heimi með heildarveltu upp á 46 milljarða evrur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×