Innlent

Gunnar Birgisson áfram bæjarstjóri

Oddvitar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Kópavogi náðu nú í kvöld samkomulagi um meirihlutasamstarf á komandi kjörtímabili. Samkomulag er um að Gunnar I. Birgisson verði bæjarstjóri og að Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknarflokks verði formaður bæjarráðs. Málefnasamningur liggur fyrir og veðrur hann lagður fyrir fulltrúaráð flokkanna á miðvikudag.

Sjálfstæðisflokkur hlaut 45,3% atkvæða í kosningunum í gær og 5 fulltrúa kjörna. Flokkurinn jók fylgi sitt nokkuð frá kosningunum 2002 eða um 7,61 prósentustig en hlaut sama fulltrúafjölda.

Framsóknarflokkur hlaut 12,26% atkvæða og einn mann kjörinn í kosningunum í gær. Framsókn galt afhroð, tapaði 15,66 prósentustiga fylgi og missti tvo bæjarfulltrúa.

Meirihluti flokkanna hélt þó engu að síður en flokkarnir hafa verið í árangursríku meirihlutasamstarfi í Kópavogi síðan 1990.

Á því kjörtímabili sem senn er á enda hafa flokakrnir því haft 8 bæjarfulltrúa af 11 en munu hafa 6 af 11 á komandi kjörtímabili.

Þreifingar um áframhaldandi samstarf hófust strax í nótt þegar ljóst þótti að meirihlutinn héldi. Oddvitarnir náðu saman í kvöld og verður samkomulagið kynnt fulltrúaráðum flokkanna á miðvikudag.

Samkomulag er um að Gunnar I. Birgisson Sjálfstæðisflokki verði bæjarstjóri og, Ómar Stefánsson Framsóknarflokki verði formaður bæjarráðs. Þá er í samkomulaginu getið um skiptingu málefnanefnda á milli flokkanna.

Niðurstöður kosninganna í Kópavogi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×