Innlent

Leiðbeinandi reglur um netnotkun barna á leið inn á heimilin

Síminn og SAFT ætla að aðstoða foreldra við að setja börnum reglur um net- og símanotkun. Leiðbeiningaspjald er á leið inn á heimili grunnskólabarna á aldrinum 6-14 ára. SAFT, eða Samtök, fjölskylda og tækni, er verkefni á vegum Heimilis og skóla til að stuðla að vakningu hvað varðar örugga notkun barna og unglinga á Netinu og öðrum miðlum. SAFT varð til í þeim tilgangi að stuðla til öruggrar notkunar barna á miðlunum sem eru allt í kring um þau.

Kannanir á vegum Heimilis og skóla hafa sýnt að foreldrar telja sig vita hvað börnin þeirra eru að gera á netinu en börnin eru ekki sammála. Í könnun árið 2003 kom fram að 90% foreldra töldu sig fylgjast vel eða mjög vel með því netnotkun barna sinna en aðeins 20% barna sögðu að foreldrar sínir fylgdust vel eða mjög vel með þeim. Könnun Gallup fyrir Heimili og skóla í maí síðastliðnum sýndi að um helmingur foreldra setur börnum sínum engar reglur hvað varðar netnotkun. Þessar niðurstöður og hætturnar sem fylgja netinu eru kveikjan að leiðbeiningaspjaldinu sem er samvinnuverkefni SAFT og Símans. Á spjaldinu eru einfaldar grunnreglur sem foreldrar geta sett börnum sínum varðandi netnotkun og eins varðandi smáskilaboð og farsímaþjónustu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra tók við fyrsta spjaldinu í verslun Símans í Smáralind í gær.

Á heimasíðu SAFT, www.saft.is, er hægt að nálgast frekari upplýsingar og leiðbeiningar til foreldra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×