Innlent

Flugferðum fjölgað eftir vistaskiptin

Flugferðum til Barcelona frá Íslandi verður fjölgað eftir kaupin á Eiði Smára. Barcelona-treyjur eru uppseldar í Reykjavík, en stórar sendingar eru á leiðinni.

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgum að Chelsea, sem varla nokkur Íslendingur hélt með fyrir áratug eða svo varð allt í einu vinsælasta liðið á Englandi hjá Íslenskum ungmennum og jafnvel hefur mátt sjá einstaka eldri liðhlaupa sem áður klæddust rauðu í fagurblárri Chelsea treyju eftir að titlarnir fóru að skila sér á Stamford Bridge.

Eiður Smári á auðvitað þarna stærstan hlut að máli og áhrifin verða vart minni við búferlaflutningana til evrópumeistara Barcelona.

Hörður Hilmarsson hjá ÍT-ferðum segir að þar á bæ séu menn þegar farnir að íhuga pakkaferðir á leiki hjá Barcelona næsta vetur. ÍT-ferðir séu í aðstöðu til þess að útvega miða, en allt ráðist þetta af framboði á flugferðum.

Heimsferðir hafa þegar ákveðið að fjölga ferðum sínum til norðausturstrandar Spánar í vetur. Þannig verða 9 ferðir til Barcelona í október og 7 í nóvember, sem er töluvert meira en í venjulegu árferði. Þá er á teikniborðinu að fjölga ferðum enn frekar þegar líður á veturinn ef landann fýsir í að berja Eið Smára augum á Nývangi.

Ekki náðist í upplýsingafulltrúa Flugleiða í dag, en líklegt verður að teljast að fyrirtækið feti í fótspor Heimsferða og fjölgi ferðum til Barcelona næsta vetur.

Barcelona treyjur hafa verið uppseldar um nokkurt skeið í Reykajvík, en Jói Útherji hefur þegar pantað stóra sendingu af treyjum sem kemur þegar líður á sumarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×